Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 15/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 15/2022

Fimmtudaginn 31. mars 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. janúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. nóvember 2021, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 9. desember 2020 og var umsóknin samþykkt 28. janúar 2021. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 18. október 2021, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði upplýsingar um að hann hefði verið staddur erlendis samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og án þess að hafa tilkynnt um þá dvöl. Óskað var eftir skýringum vegna þessa og farseðlum. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. nóvember 2021, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta hefðu verið stöðvaðar þar sem umbeðin gögn hefðu ekki borist stofnuninni.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. janúar 2022. Með bréfi, dags. 14. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. mars 2022, barst greinargerð Vinnumálastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. mars 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að Vinnumálastofnun hefði stöðvað greiðslur til hans og óskað eftir gögnum. Á þeim tíma hafi kærandi verið veikur og sagt Vinnumálastofnun að hann gæti ekki mætt. Það sé ekki auðvelt að búa í framandi landi og finna vinnu. Kærandi sé án vinnu og peninga. Vinnumálastofnun hafi óskað eftir gögnum en hann skilji ekki hvað stofnunin þurfi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að fulltrúi stofnunarinnar hafi rætt við kæranda í síma þann 27. september 2021. Af því símtali hafi verið ljóst að kærandi hafi verið staddur erlendis því að upprunanúmer á síma kæranda hafi sýnt að símtal hafi verið framsent á erlendan þjónustuveitanda. Símafyrirtækið Nova hafi upplýst stofnunina eftir fyrirspurn um svokölluð 888-8888 númer, að slík símtöl væru á milli landa. Þann 29. september 2021 hafi kæranda verið sendur tölvupóstur og smáskilaboð í farsíma hans frá stofnuninni þar sem hann hafi verið boðaður í viðtal á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar á höfuðborgarsvæðinu daginn eftir. Kæranda hafi verið bent á að um skyldumætingu væri að ræða og öll forföll þyrfti að boða án ástæðulausrar tafar. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að ótilkynnt forföll kynnu að leiða til stöðvunar greiðslna eftir viðeigandi ákvæðum laganna. Kærandi hafi haft samband samdægurs þar sem hann hafi greint frá því að hann væri veikur en að hann ætti tíma hjá lækni. Stofnunin hafi þá óskað eftir nánari upplýsingum um dagsetningu fyrirhugaðrar læknisheimsóknar. Kærandi hafi þá upplýst stofnunina um að hann ætti tíma hjá lækni fimmtudaginn 7. október 2021.

Með erindi, dags. 18. október 2021, hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á ástæðum þess að hann hafi ekki mætt í viðtal hjá Vinnumálastofnun þann 30. september 2021. Þá hafi kærandi verið upplýstur um að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að hann væri staddur erlendis samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt um dvöl sína erlendis til stofnunarinnar. Kæranda hafi verið veittur sjö daga frestur til að skila inn skýringum og farseðlum. Í erindi til kæranda hafi verið vakin athygli á hugsanlegum viðurlögum. Frekari skýringar hafi borist frá kæranda 19. október 2021 þar sem fram komi að hann hefði verið veikur og því ekki treyst sér til að mæta í viðtal þann 30. september. Þá hafi borist staðfesting á að hann hefði átt tíma hjá lækni þann 7. október 2021. Ekkert læknisvottorð hafi borist stofnuninni. Þann 28. október 2021 hafi fulltrúi stofnunarinnar reynt að ná í kæranda í síma í þeim tilgangi að bjóða honum á námskeið en hann hafi ekki svarað.

Með tölvupósti, dags. 8. nóvember 2021, hafi kærandi upplýst stofnunina um að hann og fjölskylda hans hefðu verið að koma frá skilgreindu Covid hááhættusvæði og því myndi fjölskyldan halda sig heima í tvo daga. Hann væri ekki lengur veikur en væri að velta fyrir sér hvort hann ætti að vera á Íslandi eða að fara í frí. Kæranda hafi verið leiðbeint um að þar sem ekki hefði verið hægt að ná í hann allan októbermánuð og að umbeðin gögn hefðu ekki borist væru greiðslur til hans stöðvaðar. Hann þyrfti því að hafa samband við Greiðslustofu Vinnumálastofnunar. Engin frekari gögn og/eða upplýsingar hafi borist frá kæranda. Þann 22. nóvember 2021 hafi Vinnumálastofnun fjallað um rétt kæranda til atvinnuleysistrygginga. Kærandi hafi verið upplýstur um að þar sem þau gögn sem hafi verið óskað eftir þann 18. október hefðu ekki enn borist væri ekki ljóst hvort hann uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga og því væru greiðslur atvinnuleysisbóta til hans stöðvaðar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga þar sem farseðlar sem stofnunin hafi óskað eftir hefðu ekki borist og því væri ekki ljóst hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga.

Samkvæmt a-lið 13. gr. og g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að viðkomandi sé virkur í atvinnuleit og í því felist meðal annars að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsúrræði komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og mæta í viðtöl hjá ráðgjöfum Vinnumálastofnunar. Ákvæðið sé svo hljóðandi:

„Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.“

Það sé jafnframt skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga að vera búsettur og staddur hér á landi, sbr. c. lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Sá sem láti hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atriði er kunni að hafa áhrif á rétt hans til atvinnuleysistrygginga geti misst rétt sinn til atvinnuleysisbóta og þurft að sæta viðurlögum á grundvelli 59. eða 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Fyrir liggi að kærandi hafi ekki skilað inn umbeðnum gögnum til Vinnumálastofnunar vegna dvalar sinnar erlendis, þrátt fyrir að eftir þeim hafi verið kallað. Í skýringum er hafi borist með kæru til nefndarinnar greini kærandi frá því að hann hafi þegar greint frá því að hann hafi verið veikur á þeim tíma er hann hafi verið boðaður í viðtal. Hann skilji hins vegar ekki hvaða viðbótargögnum sé verið að óska eftir. Vinnumálastofnun hafi óskað eftir farseðlum og skýringum kæranda með erindi, dags. 18. október 2021. Rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og að tilkynna Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem verði á högum þeirra, svo sem að tilkynna um dvöl sína erlendis samtímis því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga. Ljóst sé að kærandi hafi verið staddur erlendis, ekki hafi verið unnt að ná í hann og hann hafi ekki reynst reiðubúinn til að mæta í boðuð úrræði á vegum stofnunarinnar. Vinnumálastofnun hafi óskað eftir gögnum frá kæranda til að sannreyna það tímabil sem hann hafi átt rétt á atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi ekki orðið við þeirri beiðni. Þar til umbeðin gögn berist sé ekki hægt að taka afstöðu til þess hvenær kærandi uppfyllti skilyrði laganna til greiðslna atvinnuleysistrygginga. Í samræmi við framangreint hafi greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda verið stöðvaðar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta stöðvun greiðslna atvinnuleysistrygginga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. nóvember 2021, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda með vísan til þess að umbeðin gögn hefðu ekki borist.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem telst tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur einnig fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., án ástæðulausrar tafar.

Í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt að þeim skilyrðum er að vera búsettur, með skráð lögheimili og staddur hér á landi. Einnig er skilyrði samkvæmt 1. mgr. 13. gr. að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr.

Samkvæmt gögnum málsins var uppi grunur um að kærandi væri staddur erlendis og var honum því með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 18. október 2021, veitt tækifæri til að skila skýringum vegna þessa og farseðlum. Í sama bréfi var óskað eftir afstöðu kæranda fyrir því að hafa ekki mætt í boðað viðtal hjá stofnuninni 30. september 2021. Kærandi veitti þær skýringar að honum hefði liðið mjög illa þá vikuna og því hefði hann ekki getað mætt. Engar skýringar bárust frá kæranda vegna dvalar erlendis og því voru greiðslur til hans stöðvaðar með vísan til þess að ekki væri ljóst hvort hann uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga. Fyrir úrskurðarnefndinni veitti kærandi þær skýringar að hann skilji ekki hvaða gögnum Vinnumálastofnun hafi óskað eftir. 

Þar sem kærandi veitti Vinnumálastofnun engar skýringar er varða meinta dvöl erlendis liggur ekki ljóst fyrir hvort hann uppfyllti skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um að vera staddur hér á landi á þeim tíma sem um ræðir. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta hina kærðu ákvörðun.  


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. nóvember 2021, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum